top of page

Tacos með risarækjum, mangósalsa og hvítlauks-lime sósu

Hér höfum við ómótstæðilegar tacos með hvítlauksmarineruðum risarækjum, lárperu, klettasalati og frískandi mangósalsa. Ótrúlega bragðgóður og frískandi réttur sem er enga stund að verða til.


Fyrir þennan rétt er mikilvægt að finna sér passlega þroskað mangó þar sem óþroskuð mangó eru ekki nægilega sæt en ofþroskuð eru of mjúk og sæt. Reynið því að velja mangó sem gefa örlítið eftir þegar þau eru kreist, en eru þó nokkuð stinn.

Fyrir 2:

Risarækjur, 400 g

Klettasalat, 40 g

Kirsuberjatómatar, 125 g

Mangó, 1 lítið

Rauðlaukur, 35 g

Kóríander, 10 g

Majónes, 60 g

Sýrður rjómi 10%, 60 g

Límóna, 1 stk

Hvítlauksrif, 2 stk

Avacado, 1 stk

Litlar tortillur (6“), 8 stk

 
  1. Þerrið rækjurnar á hreinu eldhússtykki eða með eldhúspappír. Setjið rækjurnar svo í skál með smá olíu og salti. Pressið 1 hvítlauksrif saman við og blandið vel saman. Látið marinerast á meðan unnið er í öðru.

  2. Hrærið saman sýrðum rjóma og majónesi. Rífið börkinn af límónunni og pressið 1 hvítlauksrif. Hrærið límónuberki og pressuðum hvítlauk saman við sósuna ásamt 1 msk a límónusafa. Smakkið til með salti og meiri límónusafa ef þarf.

  3. Skerið mangó og tómata í litla bita, saxið kóríander (líka stilkana) og sneiðið rauðlauk í þunna strimla. Blandið saman í skál.

  4. Hitið um 1 msk af olíu við meðalháan hita. Steikið rækjurnar í 2 mín á annari hliðinin og svo 1-2 mín á hinni hliðinni eða þar til þær eru eldaðar í gegn. Þetta er best að gera í 2 skömmtum svo rækjurnar steikist sem best. Smakkið til með salti og kreistu af límónusafa.

  5. Hitið tortilla kökur í stutta stund eftir leiðbeiningum á umbúðum og sneiðið avacado.

  6. Raðið klettasalati, rækjum, mangó salsa, avacado og hvítlauks lime sósu í tortillurnar og berið fram.

Comments


bottom of page