Ljúffengt pappardelle pasta hulið rauðri pestósósu með safaríkum kjúkling, basil og ristuðum pankó raspi.
Frekar einfaldur í undirbúningi á fljótgerður og því jafn hentugur á virkum dögum og hann er sem helgarpasta.
Verði ykkur að góðu!
Fyrir 2-3:
Kjúklingabringur, 2 stk (sirka 350 g)
Pappardelle pasta, 250 g / Eða tagliatelle með eggjum
Laukur, 120 g
Hvítlauksrif, 1 stk
Gott rautt pestó, 95 g
Hvítvín, 50 ml
Tómatpúrra, 2 msk
Rjómi, 150 ml
Pankó brauðraspur, 20 g
Kjúklingakraftur (duft), 1 tsk
Kjötkraftur (duft), 0,5 tsk
Herbs de Provence, 2 tsk
Parmesan ostur, 30 g + aðeins meira í lokin ofan á réttinn að sjálfsögðu
Spínat, 50 g
Basil, 5 g
Ristið pankó brauðraspinn á heitri pönnu þar til hann er fallega gylltur.
Skerið kjúklingabringurnar í tvennt lárétt eftir miðjunni svo úr verði 4 jafn þykkar sneiðar. Hitið olíu á pönnu, saltið og piprið kjúklinginn og steikið svo við meðalháan hita þar til hann er fulleldaður, sirka 2,5-3 mín á hvorri hlið Setjið á disk, hyljið með álpappír og geymið til hliðar.
Sjóðið pasta eftir leiðbeiningum á pakka en takið frá 2 dl af pastavatni áður en vatnið er sigtað frá pastanu. Sterkjan í pastavatninu mun hjálpa til við að mynda góða sósu á pönnunni.
Saxið lauk smátt og steikið á pönnu við miðlungshita þar til hann er glær og mjúkur. Pressið hvítlauksrif út á pönnuna og steikið í um 1 mín. Bætið hvítvíni út á pönnuna og látið sjóða niður í smástund. Bætið næst tómatpúrru og pestó út á pönnuna og steikið í 1 mín. Bætið rjóma, kjúklingakrafti, kjötkrafti og Herbs de Provence út á pönnuna og látið malla rólega í nokkrar mín.
Hækkið hitann á pönnunni og bætið 150 ml af pastavatninu sem tekið var til hliðar út á pönnuna í nokkrum skömmtum, hrærið vel á milli og látið malla þar til sósan þykkist hæfilega. Rífið parmesan ost út á pönnuna. Notið restina af pastavatninu ef þess þarf.
Lækkið hitann í lága stillingu og hrærið spínati saman við sósuna þar til það er búið að mýkjast.
Sneiðið kjúklingabringurnar í bita og saxið basil. Blandið að lokum kjúkling, basil og pasta vandlega saman við sósuna á pönnunni. Smakkið til með salti og pipar.
Toppið réttinn með ristuðum pankó raspi og auka parmesan osti. Berið fram með td hvítlauksbrauði og fersku salati til hliðar.
Comments