top of page

Rjómalagað kjúklinga pappardelle

Ljúffengt pappardelle pasta hulið rauðri pestósósu með safaríkum kjúkling, basil og ristuðum pankó raspi.


Frekar einfaldur í undirbúningi á fljótgerður og því jafn hentugur á virkum dögum og hann er sem helgarpasta.


Verði ykkur að góðu!


Fyrir 2-3:

Kjúklingabringur, 2 stk (sirka 350 g)

Pappardelle pasta, 250 g / Eða tagliatelle með eggjum

Laukur, 120 g

Hvítlauksrif, 1 stk

Gott rautt pestó, 95 g

Hvítvín, 50 ml

Tómatpúrra, 2 msk

Rjómi, 150 ml

Pankó brauðraspur, 20 g

Kjúklingakraftur (duft), 1 tsk

Kjötkraftur (duft), 0,5 tsk

Herbs de Provence, 2 tsk

Parmesan ostur, 30 g + aðeins meira í lokin ofan á réttinn að sjálfsögðu

Spínat, 50 g

Basil, 5 g

 
  1. Ristið pankó brauðraspinn á heitri pönnu þar til hann er fallega gylltur.

  2. Skerið kjúklingabringurnar í tvennt lárétt eftir miðjunni svo úr verði 4 jafn þykkar sneiðar. Hitið olíu á pönnu, saltið og piprið kjúklinginn og steikið svo við meðalháan hita þar til hann er fulleldaður, sirka 2,5-3 mín á hvorri hlið Setjið á disk, hyljið með álpappír og geymið til hliðar.

  3. Sjóðið pasta eftir leiðbeiningum á pakka en takið frá 2 dl af pastavatni áður en vatnið er sigtað frá pastanu. Sterkjan í pastavatninu mun hjálpa til við að mynda góða sósu á pönnunni.

  4. Saxið lauk smátt og steikið á pönnu við miðlungshita þar til hann er glær og mjúkur. Pressið hvítlauksrif út á pönnuna og steikið í um 1 mín. Bætið hvítvíni út á pönnuna og látið sjóða niður í smástund. Bætið næst tómatpúrru og pestó út á pönnuna og steikið í 1 mín. Bætið rjóma, kjúklingakrafti, kjötkrafti og Herbs de Provence út á pönnuna og látið malla rólega í nokkrar mín.

  5. Hækkið hitann á pönnunni og bætið 150 ml af pastavatninu sem tekið var til hliðar út á pönnuna í nokkrum skömmtum, hrærið vel á milli og látið malla þar til sósan þykkist hæfilega. Rífið parmesan ost út á pönnuna. Notið restina af pastavatninu ef þess þarf.

  6. Lækkið hitann í lága stillingu og hrærið spínati saman við sósuna þar til það er búið að mýkjast.

  7. Sneiðið kjúklingabringurnar í bita og saxið basil. Blandið að lokum kjúkling, basil og pasta vandlega saman við sósuna á pönnunni. Smakkið til með salti og pipar.

  8. Toppið réttinn með ristuðum pankó raspi og auka parmesan osti. Berið fram með td hvítlauksbrauði og fersku salati til hliðar.

Comments


bottom of page