Pulled pork er æði. Það eina sem þið þurfið er heill biti af grísahnakka, góð kryddblanda og þolinmæði og þá stendur ekkert á milli ykkar og ljúffengra BBQ borgara. Löðrið með uppáhalds BBQ sósunni ykkar og búið til borgara með heimagerðu hrásalati eða setjið í tacos eða vefjur. Möguleikarnir eru óteljandi en allir ljúffengir.
Grísahnakki (heill & úrbeinaður), 2.2-2.5 kg
(Grísahnakkinn fæst í Costco eða í sérpöntun í kjötbúðum)
Cumin, 1.5 tsk
Reykt paprika, 1.5 tsk
Hvítlauksduft, 1.5 tsk
Oregano, 1.5 tsk
Púðursykur, 1 msk
Borðsalt, 1 tsk
Laukur, 1 stk
Gulrót, 1 stk
Hvítlauksrif, 4 stk
Kjúklingakraftur, 2 teningar
Sambal oelek, 3 msk
Vatn eftir þörfum
Skerið lauk í fernt, gulrót gróflega og kremjið hvítlaukinn aðeins. Hrærið saman cumin, papriku, hvítlauksduft, oregano, púðursykur og salti.
Nuddið kryddblöndunni vel í kjötið og setjið í steypujárnspott með loki sem rúmar kjötið.
Raðið grænmetinu meðfram kjötinu, myljið kjúklingateningana og setjið í pottinn ásamt sambal oelek og nægu vatni til að hylja 3/4 af kjötinu (ætti að vera sirka 0,5 líter)
Setjið inn í 100 °C heitan ofn og eldið í 5 klukkustundir eða þar til kjötið losnar auðveldlega í sundur þegar togað er í það með gaffli.
Færið kjötið í á fat og hyljið með álpappír í um 20 mín áður en þið rífið það í sundur. Nýtið tímann á meðan kjötið hvílir til að til að sjóða um 600 ml af soðinu niður í um 150 ml.
Tætið kjötið í sundur með 2 göfflum og hrærið soðinu saman við. Smakkið til með salti.
Comments