top of page

Pizza með Ítölsku salami, rauðlauk, rósmarín og heimalagaðri pizzasósu

Það er fátt betra en rjúkandi heit og góð pizza, en að ná fullkomnum botni með köntum sem rísa vel við bökun getur reynst erfiðara en að segja það. Ég fór í gegnum margar uppskriftir að botnum áður en ég fann uppskrift sem ég var virkilega ánægður með.


Þessi uppskrift er svakalega einföld og skilar manni æðislegum pizzabotni en hún krefst smá þolinmæði þar sem deigið þarf að taka sig í 2 daga áður en pizzurnar eru bakaðar. Allt vel þess virði samt!


Mistökin sem sumir gera er að hlaða allt of mikilli sósu og áleggi á pizzurnar sínar en það getur orðið til þess að pizzan bakist illa og verði of blaut í miðjunni. Minna getur nefnilega oft verið meira þegar kemur að því að baka sér hina fullkomnu pizzu.


Mér þykir æðislegt að nota sterka salami, rauðlauk og rósmarín saman ásamt ríflegu magni af parmesanosti á pizzuna mína. Mæli með!

Fyrir 2 pizzur:

Brauðhveiti, 420 g + smá meira til að vinna með

Sykur, 10 g

Borðsalt, 7 g

Þurrger, 7 g

Ólífuolía, 2 msk

Vatn, 280 g

San Marzano tómatar, 1 dós

Basil, 1 stilkur + lauf

Hvítlauksrif, 1 stk lítið

Hunang, 1 tsk

Piccante, Sterk Ítölsk salami, 75 g / Tariello, fæst í Hagkaup

Rauðlaukur, ½ lítill

Rósmarín, 1 stór stilkur

Mozzarellakúla, 1 stk

Chilifræ, eftir smekk

Parmesanostur, eftir smekk

 
  1. Hitið vatnið í um 30-40 sek í örbylgjuofni þar til það er orðið vel volgt en ekki heitt.

  2. Setjið hveiti, sykur, salt og þurrger í matvinnsluvél og látið vélina ganga í stuttum hrinum í 4-5 skipti þar til allt hefur samlagast vel. Hellið vatni og ólífuolíu yfir hveitiblönduna og látið vélina ganga samfleytt í 15 sek þar til deigkúla hefur myndast. Látið vélina svo ganga í 15 sek til viðbótar.

  3. Stráið smá hveiti á borð og takið deigið úr matvinnsluvélinni. Hnoðið deigið í stutta stund og myndið úr því kúlu. Spreyið eða smyrjið stóra skál með olíu og færið deigið í skálina. Hyljið með matarfilmu og setjið í kæli í 2 sólarhringa.

  4. Takið deigið úr kæli 2 klst áður en baka á pizzurnar. Skiptið deiginu í tvennt og myndið úr því 2 kúlur. Færið kúlurnar í skálar og hyljið með matarfilmu. Látið deigið jafna sig við stofuhita í amk 2 klst.

  5. Stillið ofn á 250 °C með yfir og undirhita og setjið bökunarplötu eða pizzastein inn í ofninn til þess að hitna á meðan unnið er í öðru.

  6. Setjið smá olíu í lítinn pott og stillið á miðlungshita. Pressið hvítlauksrif saman við og steikið í um 1 mín eða þar til hvítlaukurinn er farinn að ilma.

  7. Kremjið San Marzano tómatana með höndunum og bætið út í pottinn ásamt vökvanum úr dósinni, basil stilknum og 1 tsk af hunangi. Náið upp suðu og lækkið svo hitann svo það malli hraustlega í pottinum. Látið malla í um 15 mín eða þar til sósan þykkist aðeins og smakkið svo til með salti.

  8. Sneiðið salami í þunnar sneiðar, saxið rauðlauk gróflega og týnið rósmarín laufin af stilknum og saxið gróflega.

  9. Notið hendurnar til þess að fletja botninn út í um 25 cm hring. Best er að vinna út frá miðju deigsins í átt að kantinum og reyna að hlífa um 2 cm af kantinum við sem mestu hnjaski, en þannig er gasinu sem hefur myndast yfir síðustu 2 daga ýtt út í kantinn sem verður til þess að hann lyftist mun betur.

  10. Smyrjið sósu á botninn og rífið mozzarellaost yfir. Dreifið salami yfir ásamt rauðlauk, rósmarín, chiliflögum eftir smekk og rífið að lokum parmesanost yfir.

  11. Bakið á pizzasteini eða forhitaðri bökunarplötu í neðstu grind í ofni í um 8-10 mín.

Comments


bottom of page