Ljúffengt Pad Thai með kjúkling sem bragðast eins og besta take away. Fyrir mér á gott Pad Thai að vera salt, súrt, sætt og pínu spicy og þessi uppskrift tjékkar í öll þau box. Algjört nammi!
Ekki láta langan hráefnalistann hræða þig því rétturinn er sáraeinfaldur í framkvæmd. Galdurinn er að vera búinn að skera, píska og hræra öll hráefnin áður en byrjað er að steikja því rétturinn tekur enga stund að verða klár.
Fyrir 3:
Kjúklingalæri, 300 g
Hrísgrjónanúðlur, 200 g
Egg, 2 stk
Fiskisósa, 4 msk
Tamarind paste, 3 msk / Fæst í Fiska á Nýbýlavegi
Púðursykur, 5 msk
Hrísgrjónaedik, 1 msk
Límónusafi, 1 msk
Srirachasósa, 1 msk
Paprikuduft, 1 msk
Salthnetur, 80 ml
Baunaspírur, 60 g
Laukur, ½ lítill
Hvítlaukur, 3 rif
Vorlaukur, 2 stk
Kóríander, 8 g
Agúrka, 50 g
Límóna, 1 stk
Útbúið hrísgrjónanúðlur samkvæmt leiðbeiningum á umbúðum.
Skerið kjúklingalærin í munnbitastærðir og veltið upp úr olíu, 1 pressuðu hvítlauksrifi og salti.
Hrærið saman fiskisósu, tamarind paste, púðursykur, hrísgrjónaedik, límónusafa, srirachasósu og paprikuduft.
Sneiðið hvíta og ljósgræna partinn af vorlauknum í sneiðar.
Sneiðið dekkri græna partinn af vorlauknum í þunnar sneiðar og geymið til hliðar til þess að strá yfir réttinn þegar hann er tilbúinn.
Pískið eggin saman í skál. Saxið salthnetur og kóríander og sneiðið lauk í þunna strimla. Skerið gúrkur í sneiðar.
Hitið olíu á pönnu við frekar háan hita og steikið kjúklinginn þar til hann er farinn að taka lit og er nánast eldaður í gegn.
Lækkið hitann á pönnunni í miðlungshita. Bætið lauk og ljósa partinum af vorlauknum út á pönnuna og steikið þar til laukurinn er farinn að mýkjast. Pressið 2 hvítlauksrif út á pönnuna og steikið áfram í um 1 mín.
Færið allt á hliðar á pönnunni og hellið eggjunum á auða part pönnunar. Bíðið í smástund þar til eggin eru farin að þéttast og hrærið þá í þeim til að brjóta þau í sundur og hrærið þeim svo vandlega saman við hin hráefnin á pönnunni.
Bætið ¾ af baunaspírunum út á pönnuna ásamt núðlunum og sósunni. Veltið núðlunum upp úr sósunni í stutta stund þar til allt hefur samlagast. Hrærið helmingnum af kóríander, vorlauk og salthnetunum saman við og smakkið réttin til með salti.
Toppið réttinn með restinni af salthnetunum, kóríander og vorlauk. Berið fram með límónubátum, gúrkusneiðum og restinni af baunaspírunum til hliðar.
Comments