top of page

Pad Thai með risarækjum

Updated: Mar 14, 2021

Fyrir ekki svo löngu var til veitingastaður sem hét Gamla Síam og var staðsettur ofarlega á Laugavegi. Þar var að mínu mati að finna besta Pad Thai á Íslandi en nú eru þessi yndislegu hjón sem áttu staðinn hætt í rekstri og farin að njóta lífsins.

Það setti Pad Thai vanann minn í laglegan bobba og því var ekkert í stöðunni nema að reyna að endurskapa réttinn í þeirra stíl sem best ég gat.

Eftir nokkrar tilraunir endaði ég með þessa uppskrift hér og hún er svona líka aldeilis ljúffeng og Pad Thai vananum mínum er borgið!

Fyrir 3:

Risarækjur, 300 g

Hrísgrjónanúðlur, 200 g

Egg, 2 stk

Fiskisósa, 4 msk

Tamarind paste, 3 msk / Fæst í Fiska á Nýbýlavegi

Púðursykur, 5 msk

Hrísgrjónaedik, 1 msk

Límónusafi, 1 msk

Srirachasósa, 1 msk

Paprikuduft, 1 msk

Salthnetur, 80 ml

Baunaspírur, 60 g

Laukur, ½ lítill

Hvítlaukur, 3 rif

Vorlaukur, 2 stk

Kóríander, 8 g

Agúrka, 50 g

Límóna, 1 stk

 
  1. Útbúið hrísgrjónanúðlur samkvæmt leiðbeiningum á umbúðum.

  2. Þerrið rækjur og setjið í skál með smá skvettu af olíu og 1 pressuðu hvítlauksrifi. Látið marinerast á meðan unnið er í öðru.

  3. Hrærið saman fiskisósu, tamarind paste, púðursykur, hrísgrjónaedik, límónusafa, srirachasósu og paprikuduft.

  4. Sneiðið hvíta og ljósgræna partinn af vorlauknum í sneiðar.

  5. Sneiðið dekkri græna partinn af vorlauknum í þunnar sneiðar og geymið til hliðar til þess að strá yfir réttinn þegar hann er tilbúinn.

  6. Pískið eggin saman í skál. Saxið salthnetur og kóríander og sneiðið lauk í þunna strimla. Skerið gúrkur í sneiðar.

  7. Hitið olíu á pönnu við miðlungshita. Bætið lauk og ljósa partinum af vorlauknum út á pönnuna og steikið þar til laukurinn er farinn að mýkjast. Pressið 2 hvítlauksrif út á pönnuna og steikið áfram í um 1 mín.

  8. Hækkið hitann á pönnunni. Bætið rækjum út á pönnuna og steikið í um 2 mín á hvorri hlið.

  9. Færið allt á hliðar á pönnunni og hellið eggjunum á auða part pönnunar. Bíðið í smástund þar til eggin eru farin að þéttast og hrærið þá í þeim til að brjóta þau í sundur og hrærið þeim svo vandlega saman við hin hráefnin á pönnunni.

  10. Bætið ¾ af baunaspírunum út á pönnuna ásamt núðlunum og sósunni. Veltið núðlunum upp úr sósunni í stutta stund þar til allt hefur samlagast. Hrærið helmingnum af kóríander, vorlauk og salthnetunum saman við og smakkið réttin til með salti.

  11. Toppið réttinn með restinni af salthnetunum, kóríander og vorlauk. Berið fram með límónubátum, gúrkusneiðum og restinni af baunaspírunum til hliðar.

Comments


bottom of page