top of page

Mið-Austurlensk kjúklingalæri með harissa og hunangs sætkartöflum, pistasíum og fetaosti

Harissa er eitt af mínum uppáhalds hráefnum, enda er hægt að nota þetta kryddmauk á ótal vegu. Sætar kartöflur og harissa eru ótrúlega góð blanda þar sem harissa parast rosalega vel á móti sætu, en til þess að taka sætuna aðeins lengra þá bæti ég líka við smá hunangi.


Þessi uppskrift tékkar í öll boxin þegar mann langar í bragðmikinn og ljúffengan kvöldmat með lítilli fyrirhöfn, en eftir örlítið prepp er öllu skellt á bökunarplötu og bakað þangað til lærin eru búin að taka fallegan lit og kartöflurnar eru vel bakaðar að utan en mjúkar að innan.

Kjúklingalæri skinn og beinlaus, 450 g

Sætar kartöflur, 450 g

Karrý de luxe, 1 msk / Pottagaldrar

Harissa, 2 tsk / Al'fez

Hunang, 1 tsk

Laukur, 1 stk

Fetaostur, 30 g

Pistasíuhnetur, 20 g

Kóríander, 4 g / Eða steinselja

Sýrður rjómi, 40 ml

Japanskt mayo, 40 ml

Dill ferskt, 2 g

Hvítlaukur, 2 g / Sirka 1/2 hvítlauksrif

Límóna, 1 stk

 
  1. Forhitið ofn í 180 °C blástur.

  2. Setjið kjúklingalæri í skál með um 1 msk af olíu, 1 tsk af flögusalti og Karrý de lux og blandið vel saman. Raðið lærunum á helminginn af bökunarpappírsklæddri ofnplötu.

  3. Skerið sætar kartöflur í bita og veltið upp úr smá olíu, harissu, hunangi og salti. Dreifið yfir hinn helminginn af ofnplötunni.

  4. Skerið lauk í fernt og veltið upp úr smá olíu og salti. Dreifið yfir bökunarplötuna með sætu kartöflunum.

  5. Setjið bökunarplötuna í miðjugrind í ofni og bakið í 30-35 mín.

  6. Pressið eða rífið hvítlauk og saxið dill. Hrærið saman mayo, sýrðan rjóma, hvítlauk og dill. Smakkið sósuna til með smá salti og kreistu af límónusafa.

  7. Grófsaxið pistasíur, myljið fetaost og saxið kóríander.

  8. Skiptið kjúkling, lauk og kartöflum á milli diska og stráið pistasíum, fetaosti og kóríander yfir.

  9. Berið fram með fersku salati.

Þessa uppskrift má auðveldlega tvöfalda en þá er betra að baka kjúklinginn á sér bökunarplötu og hafa plöturnar þá í neðstu og miðju grind í ofni.


Bình luận


bottom of page