Það varð allt vitlaust við matarborðið þegar ég gerði þessa pizzu nú um daginn.
Botninn á þessari pizzu er mjúkur, kryddaður með hunangi, túrmerik og hvítlauk, er eins og blanda af naan brauði og pizzabotni og verður fallega gulur af kryddinu.
Í staðin fyrir venjulega pizzasósu nota ég rjómalagaða butter chicken sósu frá Pataks, en hún í sambland við ostinn, möndlurnar og bragðmikinn kjúklinginn er ótrúlega ljúffengt.
Að toppa pizzurnar með hvítlauksolíu og kóríander er svo algjörlega ómissandi!
Þessi uppskrift er fyrir 2 matarmiklar pizzur.
Kornax brauðhveiti (Blátt), 500 g
Þurrger, 7.5 g
Ólífuolía, 50 ml
Vatn (volgt), 250 ml
Sykur, 5 ml
Borðsalt, 4 ml
Hunang, 10 ml
Túrmerik (Frá Krydd & Tehúsinu), 10 ml
Hvítlauksduft (Frá Krydd & Tehúsinu), 2.5 ml
Kjúklingalæri (Skinn og beinlaus), 500 g
Tandoori masala (Frá Krydd & Tehúsinu), 30 ml
Rifinn mozzarella ostur, 200 g
Butter chicken sósa (Pataks), 360 ml
Möndlur, 26 stk
Rauðlaukur, 1 stk
Kóríander, 4 g
Hvítlaukur, 1 stk
Ólífuolía, 45 ml
Setjið 250 ml af volgu vatni í skálina á hrærivél með deigkrók ásamt þurrgeri og sykur. Látið standa í um 10 mín eða þar til gerið hefur virkjast og er farið að freyða.
Bætið hunangi, salti, hveiti, túrmerik, hvítlauksdufti og 50 ml af ólífuolíu út í og látið vélina ganga á miðlungshraða í um 6-10 mín eða þar til deigkúla hefur myndast.
Smyrjið skál með smá olíu, færið deigið í skálina og setjið plastfilmu eða hreint viskastykki yfir. Stillið ofninn á 200 °c gráður með blæstri í 30 sek en slökkvið svo á ofninum. Setjið skálina með deiginu inn í rétt svo volgann ofninn, lokið ofnhurðinni og látið deigið hefast í 60 mín.
Á meðan deigið hefast inni í ofni, skerið kjúklingalærin í munnbitastærðir og steikið við frekar háan hita á pönnu þar til kjúklingurinn er fulleldaður. Kryddið kjúklinginn með Tandoori masala og saltið eftir smekk. Geymið.
Pressið 1 hvítlauksrif út í 3 msk af ólífuolíu og hitið í örbylgjuofni í 2x 30 sek, eða þar til olían er farin að ilma af hvítlauk. Geymið.
Takið deigið úr ofninum og stillið ofninn á 250 °C yfir og undir hita.
Stráið svolitlu hveiti yfir vinnusvæðið og skiptið deiginu í tvennt. Færið annan helminginn aftur í skálina og hyljið með viskustykki eða plastfilmu og geymið á meðan fyrsta pizzan er gerð.
Rúllið deigið út í um 28-30 cm, smyrjið 30 cm steypujárnspönnu með smá ólífuolíu og setjið útrúllað deigið í pönnuna.
Dreifið 180 ml af Butter chicken sósu yfir deigið ásamt, 100 g af osti, helmingnum af steikta kjúklingnum og sneiddum rauðlauk eftir smekk.
Bakið pizzuna í miðjum ofni í 10-12 mín eða þar til osturinn er farinn að krauma og kantarnir eru farnir að gyllast. Saxið 13 möndlur gróflega og dreifið yfir pizzuna þegar um 3-4 mín eru eftir af bökunartímanum.
Saxið kóríander gróflega og dreifið yfir pizzuna þegar hún kemur úr ofninum og dreifið hvítlauksolíu yfir.
Endurtakið skref 8-11 fyrir næstu pizzu.
Comments