Humar og nduja eru svo sannarlega geggjað tvíeyki á pizzu. Nduja kryddpylsan er sterk og bragiðmikil á meðan humarinn er mildur og ljúffengur. Allt passar þetta fullkomlega saman og sérstaklega með heimalöguðu hvítlauksolíunni.
Sannkölluð lúxus föstudagspizza!

Ólífuolía, 100 ml
Hvítlaukur, 4 rif
Steinselja, 5 grömm
San marzano tómatar, 1 dós
Hunang, 1 tsk
Basilíka stilkur og lauf, 5 g
Pizzadeig, 220 g
Nduja (Tariello), 60 g
Humar, 150 g
Rauðlaukur sneiddur, 20 g
Parmesanostur, 5 g
Mozzarella, 120 g
Rauðar chiliflögur eftir smekk
Setjið ólífuolíu í lítinn pott og pressið 3 hvítlauksrif saman við. Hitið í 1-2 mín þar til hvítlaukurinn fer að ilma. Setjið í hentugt ílát og látið kólna í nokkrar mín. Maukið vandlega með töfrasprota og smakkið svo til með salti. Geymið í lokuðu íláti.
Setjið smá olíu í lítinn pott og stillið á miðlungshita. Pressið hvítlauksrif saman við og steikið í stutt stund þar til hvítlaukurinn fer að ilma.
Kremjið San Marzano tómatana með höndunum og bætið út í pottinn ásamt vökvanum úr dósinni, basilíkunni og 1 tsk af hunangi. Náið upp suðu og lækkið svo hitann svo það malli hraustlega í pottinum. Látið malla í um 15 mín eða þar til sósan þykkist aðeins og smakkið svo til með salti.
Takið pizzabotninn úr kæli amk 1 klst áður en elda á pizzuna.
Hreinsið svörtu röndina úr humarinum og setjið í skál með olíu og einu pressuðu hvítlauksrifi. Látið marinerast í 30 mín og steikið svo við háan hita þar til humarinn er fulleldaður. Saltið eftir smekk.
Setjið pizzastein í neðstu grind í ofni og stillið á hæsta hita (300°C helst). Látið steininn hitna á meðan unnið er í öðru.
Dreifið svolitlu hveiti yfir borðið og notið hendurnar til þess að fletja pizzabotninn út í um 12“ hring og leggið svo á bökunarpappír. Best er að vinna út frá miðju deigsins í átt að kantinum og reyna að hlífa um 1,5 cm af kantinum við sem mestu hnjaski, en þannig er gasinu ýtt út í kantinn sem verður til þess að hann lyftist mun betur.
Dreifið sósu yfir pizzabotninn og því næst osti. Raðið humar á pizzuna og dreifið svo nduja og lauk yfir.
Færið pizzuna á pizzasteininn og bakið þar til pizzan er fallega gyllt og ljúffeng.
Toppið með hvítlauksolíu, chiliflögum, svolitlu flögusalti og parmesan.

Comments