top of page

Stökkir hjúpaðir kjúklingaborgarar með hrásalati og hvítlaukssósu

Updated: Mar 31, 2019

Ljúffengir stökkir kjúklingaborgarar hjúpaðir með tandoori krydduðum raspi og toppaðir með agúrkum, hrásalati og hvítlaukssósu. Algjört lostæti!


Þessir borgarar eru bakaðir í ofni en gefa djúpsteiktum bræðrum sínum ekkert eftir og tikka í ölll réttu boxin bragð og áferðarlega.


Að berja kjúklingalærin hjálpar bæði til við að mýkja kjötið og sér til þess að allir bitarnir verði tilbúnir á sama tíma, þannig endilega ekki sleppa því skrefi.

Japanskt majónes, 100 ml / Má vera venjulegt

Sýrður rjómi 18%, 100 ml

Hvítlauksrif, 1 stk

Ferskt dill, 1 msk saxað / eða 1 tsk þurrkað

Kelloggs, 45 g

Ritz Kex, 45 g

Tandoori masala, 2 msk / Frá Kryddhúsinu

Hvítlauksduft, 0,5 tsk

AB-Mjólk, 50 g

Tandoori mauk, 1 msk / Frá Pataks

Eggjahvíta úr 1 eggi

Kjúklingalæri, skinn og beinlaus, 4 stk

Hvítkál, 120 g

Agúrka, eftir smekk

Lítil hamborgarabrauð, 4 stk

 
  1. Stillið ofn á 200 °C blástur og leggið bökunarpappír á bökunarplötu.

  2. Pressið hvítlauksrif og hrærið saman við majónes, sýrðan rjóma, dill og smá salt.

  3. Setjið Kelloggs, Ritz kex, Tandoori masala og hvítlauksduft í matvinnsluvél og látið vélina ganga þar til áferðin minnir á brauðrasp. Smakkið til með salti og dreifið kryddhjúpnum yfir disk með háum köntum.

  4. Hrærið saman AB-Mjólk, Tandoori mauk, og eggjahvítu í skál.

  5. Setjið eitt kjúklingalæri í einu í poka (ég nota smellupokana frá IKEA í þetta) eða á milli tveggja blaða af bökunarpappír og berjið með litlum potti eða pönnu þar til um 0,5 cm að þykkt. Endurtakið með hin lærin.

  6. Dífið kjúklingalærunum í AB blönduna og látið mesta vökvann renna af. Þrýstið kjúklingnum svo vel í kryddhúpinn á báðum hliðum og færið á bökunarpappírsklædda ofnplötuna.

  7. Bakið kjúklinginn miðjum ofni í 10 mín, snúið bitunum og bakið í aðrar 10 mín.

  8. Sneiðið hvítkál mjög þunnt (helst með mandolíni) og hrærið 2 tsk af hvítlaukssósunni saman við.

  9. Sneiðið agúrku mjög þunnt.

  10. Ristið hamborgarabrauðin á heitri pönnu og raðið svo sósu, kjúkling, agúrkum, hrásalati og loks meiri sósu í efra brauðið saman og njótið.


コメント


bottom of page