French toast er frábær máltíð þegar maður vill gera vel við sig og sína og mjög einfalt í framkvæmd.
Ég fékk besta french toast lífs míns á skemmtilegum diner í New York í fyrra sem var stökkt að utan en silkimjúkt að innan og mig hefur langað að endurskapa það hér heima síðan þá. Galdurinn við að ná því fullkomnu er að steikja það í stutta stund en klára það svo inni í ofni, en þá færðu stökka húð en mjúka og ljúffenga miðju sem drekkur í sig sýrópið sem þú hellir yfir það.
Ef hægt er þá mæli ég eindregið með því að nota Brioche brauð í þessa uppskrift, en það má líka nota annað fínt hvít brauð eins og t.d. fransbrauð. Það er þó lykilatriði að fá brauðið óskorið svo þú getir skorið það í 3 cm sneiðar sjálf/ur.
Fyrir 2
6 stk 3 cm þykkar sneiðar af fínu brauði, helst Brioche
2 egg
180 ml mjólk
5 ml vanilludropar
2 ml kanill
1 msk púðursykur Smá salt
30 g smjör
Ber, hnetur & hlynsýróp eftir smekk
Stillið ofn á 200 °C yfir og undir hita.
Hrærið egg, mjólk, vanilludropa, kanil, púðursykur og ögn af salti vandlega saman í djúpum disk.
Dýfið báðum hliðum brauðsneiðanna í eggjablönduna og leyfið þeim að soga vökvann vel í sig. Leggið brauðið síðan á disk á meðan unnið er með restina af sneiðunum.
Bræðið smjörið á pönnu við miðlungshita og steikið brauðsneiðarnar í um 2 til 2.5 mín á hvorri hlið. Varist að hafa of háan hita svo smjörið og eggin brenni ekki við.
Færið brauðið á ofnplötu með bökunarpappír og bakið í um 12-15 mín. Fylgist með eftir 12 mín og takið út áður en brauðin verða of dökk.
Berið fram með berjum, söxuðum hnetum og hlynsýrópi.
Comments