Butter chicken er einn af mínum uppáhalds réttum og hann er líka einn sá vinsælasti réttur sem fynnst á Indverskum veitingastöðum og með fullri ástæðu, enda ótrúlega ljúffengur réttur.
Venjulega er kjúklingurinn marineraður í jógúrt, engifer, hvítlauk og kryddum í marga klukkutíma en ég stytti mér smá leið og marinera kjúklinginn í bragðmikilli kryddblöndu í 30-60 mín áður en ég baka hann við háann hita og bætið svo út í silkimjúka sósuna.
Ef þú hefur ekki prófað að gera butter chicken heima þá er komið að því núna!
Fyrir 3-4
Kjúklingalæri (skinn & beinlaus), 600 g
Miðausturlenskt kjúklingakrydd, 2 msk / Kryddhúsið
Laukur, 1 stk
Tómatpúrra, 2 msk
Hvítlauksrif, 2 stk
Engifermauk, 1 tsk
Borðedik, 1 tsk
Hunang, 1 tsk
Kanilstöng, 1 stk
Niðursoðnir tómatar, 1 dós / Ég notaði heila San Marzano tómata
Kasjúhnetur, 40 g
Garam masala, 2 msk
Kjúklingakraftur, 1 tsk / Oscar
Cumin, 1 tsk
Smjör, 40 g
Rjómi, 60 ml
Setjið kjúklingalærin í skál með góðri skvettu af olíu, 2 tsk af flögusalti og miðausturlensku kjúklingakryddi. Blandið vel saman og látið marinerast í 30-60 mín.
Stillið ofn á 200°C með blæstri.
Dreifið kjúklingalærunum yfir ofnplötu með bökunarpappír og bakið í miðjum ofni í um 25 mín eða þar til kjúklingurinn er fulleldaður og fallega brúnaður.
Sneiðið lauk í þunnar sneiðar. Hitið smá olíu í potti við miðlungs-lágan hita og steikið laukinn þar til hann er glær og mjúkur. Varist að hafa of háan hita svo laukurinn brúnist ekki.
Pressið 2 hvítlauksrif saman við laukinn og steikið í 1-2 mín.
Hækkið hitann ögn. Bætið engifermauki og tómatpúrru út í pottinn og steikið í 1-2 mín. Bætið borðediki, hunangi, kanilstöng, niðursoðnum tómötum (Kremjið tómatana með höndunum áður en þeir fara út í pottinn ef þið notist við heila San Marzano tómata), kasjúhnetum, garam masala, kjúklingakraft, cumin, 1 tsk af salti og 1 dl af vatni út í pottinn og látið malla undir loki 20 mín.
Fjarlægið kanilstöngina úr pottinum.
Bætið smjöri og rjóma út í pottinn og maukið innihald pottsins með töfrasprota þar til sósan er orðin silkimjúk, en þetta skref getur tekið nokkrar mín (verið þolinmóð). Ef sósan er of þykk má bæta við ögn af vatni.
Skerið eða rífið kjúkling í bita og bætið út í pottinn. Látið malla við vægan hita í nokkrar mín og smakkið til með salti.
Toppið með helling af ferskum kóríander og berið fram með hrísgrjónum og naan brauði.
Sæll Sigursteinn. Ég myndi þá marinera kjúklinginn upp úr pressuðum hvítlauk, smá engifermauki, cumin, chilidufti og salti í staðin. Örugglega líka mjög gott ef þú finnur einhverja kryddblöndu eins og tandoori eða tikka.
Einhver annar möguleiki en Miðausturlenskt Kjúklinagakrydd? Bý í Danaveldi og ekker kryddhús hér